Svepparéttur fyrir 2

Svepparéttur fyrir 2

Húsgagnahöllin í samstarfi með Davíð yfirkokk á Hótel Húsafelli tóku saman góð ráð hvernig hægt er að bera fram mat á fallegan og ekki alltaf hefðbundinn hátt.

Davíð ætlar að veita innsýn í hvernig hann velur að bera fram, hvaða liti hann velur saman og elda gómsæta rétti. Áherslan er ekki á matreiðsluna (uppskriftir fylgja fyrir áhugasama) heldur hvað er hægt að nota og hvernig skemmtilegt er að bera fram.

Tenging matar og litavali á matarstelli

Það sem verið er að vinna með núna eru sveppir, þeir eru þekktir fyrir að vera jarðlitaðir þannig að það sem er valið er tengt jarðlitnum.

Brún skál er valin til að leyfa hvítu sveppunum að standa svolítið útúr.

Borðbúnaðurinn er valinn eftir litnum á sveppunum og til að ná jarðtengingu milli réttar og matarstells.

Uppskrift

Steiktir sveppir

2 stk kúalubbi – skorinn niður í stykki

5 stk kastaníusveppir – skornir í fernt

1 skalottlaukur – saxaður

Saxaðar greninálar 

Söxuð steinselja

½ cl cognag

½ dl kjúklingasoð

1 tsk smjör

Greniedik

Salt

Svartur Pipar

Byrjaðu á að steikja sveppina upp úr olíu á sjóðandi heitri pönnu. Á meðan pannan er ennþá heit og sveppirnir hafa fengið fallega brúningu, helltu koníakinu yfir og berðu eld að pönnunni svo það kvikni í.

Þegar eldurinn er slokknaður hellir þú soðinu yfir og sýður það niður um helming. Því næst er smjöri bætt út í og látið sjóða saman með soðinu þangað til það blandast vel saman. Næst tekur þú pönnuna af hitanum og kastar á hana söxuðum jurtum og lauk og kryddar með greniediki, salti og pipar.

Sveppasósa

1 box Flúðasveppir – skornir í bita

15 gr þurrkaðir myrkilsveppir – lagðir í bleyti og saxaðir

1 timíangrein

1 stk skalottlaukur

1 geiri af hvítlauk

2 cl cognac

½ l rjómi

1/3 dós sýrður rjómi 36%

20 gr smjör

Greniedik

Salt

Steiktu sveppina, laukinn, hvítlaukinn og timían í olíu í potti á háum hita þangað til þeir eru orðnir vel brúnir.

Helltu cognac yfir og sjóddu niður um helming. Því næst hellir þú rjómanum yfir og sýður þetta saman við vægan hita í 20-25 mínútur.

Settu þetta síðan allt í blandara og blandaðu þangað til þetta er orðið maukað. Bættu síðan út í blandarann smjöri, sýrðum rjóma og örlítið af greniediki og bragðaðu svo til með salti.

Gott er að sigta sósuna áður en hún er borin fram heit.

Rétturinn er borinn fram með:

Hráum Flúðasveppum

Skógarsúrum

Stökkum brauðteningum

Sýrðu sveppahlaupi

Sýrðum greninálum

Ólífuolíu

Ristuðum furuhnetum

Vallhumalblómum

Fylgdu okkur á Instagram þar birtum við hugmyndir fyrir falleg og lifandi heimili

Hér má finna Davíð á Instagram

Takk fyrir og sjáumst í Höllinni!